Sagan

 

slatro

Sláturhúsið við Kaupvang er eitt af elstu húsum Egilsstaða og tengist atvinnusögu bæjarins. Í nokkur ár voru uppi hugmyndir um a breyta húsinu í einhvers konar menningarhús og komu margir að undirbúningi og hugmyndavinnu svo sem Björn Kristleifsson, arkitekt, menningarnefnd Austur-Héraðs og Fljótsdalshéraðs o.fl. Sláturhúsið er 1.514 m2.
Á fundi 14. September 2005 samþykkti menningarnefnd að óska eftir því við bæjarstjórn að fram fari formlegar viðræður sveitarfélagsins við Kaupfélag Héraðsbúa um kaup á húsinu og í desember 2005 samþykkti bæjarstjórn að fá Þróunarfélag Austurlands til að framkvæma þarfagreiningu og viðskiptaáætlun un nýtingu á húsinu, fól verkefnið í sér að:

Athuga formlega notagildi húsnæðisins og meta í grófum dráttum nauðsynlegar breytingar á því.
Koma með tillögu, byggða á þarfagreiningu, um hvernig húsið yrði nýtt og fyrirkomulagi í tengslum við starfsemina.
Koma með tillögu að mögulegri fjármögnun.

Skýrsla Þróunarfélags Austurlands kom út í apríl 2006 og í desember 2006 var endanlega gengið frá kaupum Fljótsdalshéraðs á Sláturhúsinu.
Fyrsti menningarviðburðurinn í húsinu var leikverk sem leikhópurinn Frú Norma flutti. 700IS-Hreindýraland var haldið í mars 2007 á neðri hæð hússins en formlega var neðri hæð hússins tekin í notkun í janúar 2008 þegar vegaHÚSIÐ – menningarhús fyrir ungt fólk hóf starfsemi sína þar. Síðan má segja að húsið hafi smá saman lagað sig að þeirri starfsemi sem nú er í því.
SAGA SLÁTURHÚSSINS
Sláturhúsið var byggt í áföngum árið 1958, 1992 til 1995, auk ýmissa endurbóta á tímabilinu. Eftirfarandi eru helstu áfangar varðandi notkun, uppbyggingu og endurbætur hússins:

Sláturhúsið byggt árið 1958, 1.264 m2 að stærð. Notað sem sauðfjár- og stórgripasláturhús til ársloka 1989 og eftir það aðeins notað sem stórgripasláturhús.
Viðbygging árið 1992, 228 m2. Viðbyggingin er á tveimur hæðum. Á efri hæð stórgriparétt og kælt rými fyrir stórgripakjöt, á neðri hæð verkstæði inn af vélasal og á neðri hæð, undir réttinni, voru gerð kæld rými og aðstaða til vinnslu á hangikjöti o.fl.
Verulegar endurbætur á árunum 1992-1995 á þeim hluta hússins sem notaður var fyrir slátrun og kjötvinnslu en ekkert var gert við frystigeymsluhlutann þar sem frysting á kjöti var hætt og hefur nú einangrun þar verið fjarlægð. Árið 1995 er síðan gerð 22 m2 reykingaraðstaða ( reykofn ) á neðri hæðina.
Umhverfi hússins var lagfært á árunum 1998 og 1999, skipt um jarðveg, frárennslislagnir endurnýjaðar og lóð að hluta malbikuð. Einnig voru gerðar umtalsverðar endurbætur árið 2002 og lokið við frágang utanhúss.
Stórgripaslátrun var hætt árið 2003 og síðan var húsið aðallega notað sem geymsla.