Vor / Wiosna. Pólsk menningarhátíð

25. ágúst 2020

Í ágúst hefur Sláturhúsið verið fullt af pólsku listafólki sem hefur ýmist verið með smiðjur eða sýnt verkin sín. Sýningarstjóri og skipuleggjandi menningarhátíðarinnar var listakonan Wiola Ujazdowska. Hún er fædd og uppalin í Póllandi en hefur búið og starfað á Íslandi um nokkurra ára skeið.

Á hátíðinni var haldin brúðugerðarsmiðja með listamanninum Karol Smaczny, en hann er lærður í leiklist, leikstjórnun og hefur sérhæft sig í brúðugerðarlist. Hann vann með mjög einfaldan efnivið og kenndi þátttakendum smiðjunnar að búa til óhefðbundnar brúður úr A4 blöðum og plastfilmu. Í lok smiðjunnar var unnið með Lagarfljótsorminn og hvort að hann væri í raun og veru grimmur. Gerður var skúlptúr af orminum og grímur þátttakenda hengdar upp í kringum hann. 

Kvikmyndin Rejs var sýnd í Frystiklefanum og boðið var upp á pólska smárétti fyrir sýninguna. Fyrir áhugasama þá er hægt að horfa á myndina á youtube, en hún sýnir pólskan raunveruleika fyrri tíma í kómískum búning. Slóð á myndina er hér.

Raftónlistarkonan Kinga Kozlowska spilaði hélt tónleika í Frystiklefanum en hún blandar saman raftónlist og vídjólist. 

21. ágúst opnaði samsýning pólskra listamanna sem eru búsettir á Íslandi. Það eru þau:  Agnieszka Sosnowska, ljósmyndari sem býr í Hróarstungu, Anna Pawloska, grafíklistakona, Anna Story, myndlistarkona, Grzegorz Lasnikow myndlistarmaður, Hubert Gromny myndlistarmaður, Lukas Bury myndlistarmaður, Magdalena Lukasiak, ljósmyndari, Staś Zawada, ljósmyndari og Wiola Ujazdowska, myndlistarkona. 

Í framhaldi af sýningaropnuninni voru tónleikar í Frystiklefanum með tónlistarfólkinu Kruk og Forrest Forrester og svo var kvöldinu lokað með pólsku karókí á Tehúsinu. 

Sýning á verkum myndlistarfólksins stendur til 31. ágúst. 

Sláturhúsið // Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs

Kaupvangi 9, 700 Egilsstaðir // This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. // s: 897 9479