Rausnarlegir styrkir úr Uppbyggingarsjóði Austurlands

25. janúar 2021

Í desember var úthlutað úr Uppbyggingasjóði Austurlands í fjölmörg spennandi verkefni á Austurlandi. Menningarmiðstöðin hlaut þar rausnarlega styrki fyrir þrjú verkefni sem eru á dagskrá á þessu ári. 

Sýningin Hnikun fékk styrk, en hún er fyrri sumarsýning MMF. Á sýningunni munu Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Þórdís Jóhannesdóttir sýna ný verk sem þær vinna út frá hugmyndum um skynjun, sjónrænt áreiti, myndleifar og minni. Verkin verða í ýmsum formum; ljósmyndir, málverk og textílverk sem unnin verða sérstaklega í samtali við rými Sláturhússins.

Listahátíðin Vor / Wiosna hlaut einnig styrk en það er árleg lista og menningarhátíð þar sem áhersla er lögð samspil og samtal pólskra listamanna við íslenskt samfélag. Hátíðinni er ætlað að vekja upp spurningar um stöðu og sýnileika listafólksins innan hinna hefðbundnu ramma íslensku listasenunnar og á hvern hátt menningarlegur bakgrunnur okkar speglast í listinni. Undirtitill hátíðarinnar 2021 er “ við tökum sviðið” og vísar til þess að áhersla þetta árið verður á sviðslistir. 

Síðast en ekki síst hlaut verkefnið Þjóðleikur styrk en þar er um að ræða afar farsælt samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs. Þjóleikur er með það að markmiði að styðja við unglingaleikhús á lansdsbyggðinni og efla þáttöku ungmenna í leiklistarstarfi. Þátttaka í leiklistar- eða listnámi þroskar nemendur í skólum, eflir sköpunargáfu þeirra og hæfni til samstarfs í hópum.

Einnig er okkur sérstaklega ljúft að nefna það að Þór Tulinius, leikstjóri, leikari og höfundur, hlaut styrk til að vinna handrit að opnunarleikriti í nýju leikhúsi Sláturhússins. Leikritið er ætlað börnum og er sprottið úr sagnaheimi Austurlands. 

MMF þakkar Uppbyggingarsjóði Austurlands fyrir veittan styrk, hann skiptir miklu máli í starfi miðstöðvarinnar. Án þessara styrkja gætum við ekki haldið út þeirri dagskrá sem við gerum.

Sláturhúsið // Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs

Kaupvangi 9, 700 Egilsstaðir // This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. // s: 897 9479