Skip to main content

Styrkir úr Uppbyggingasjóði Austurlands 2023

06. janúar 2023

Uppbyggingasjóður Austurlands úthlutaði styrkjum fyrir árið 2023 þann 5. desember síðastliðinn. Fjölmargir styrkir fengust í verkefni Sláturhússins, við hlökkum til að vinna þau áfram og sjá afraksturinn.

Verkefnin eru þessi:

Hollvættur á heiði – Leikhópurinn Svipir.  Í tilefni af opnun nýs sviðslistarýmis í Sláturhúsinu var ákveðið í samstarfi við leikhópinn Svipi að setja upp leiksýningu fyrir börn haustið 2023. Verkið “Hollvættur á heiði" er barnaleikrit með söngvum sem segir af syskinunum Fúsa og Petru. Þau búa í sjávarþorpi en dvelja oft í sveitinni hjá Möllu frænku sem er sauðfjárbóndi. Systkinin taka þátt í göngum og réttum að hausti og þegar kemur á daginn að uppáhalds ærin hennar Möllu, Þokkabót, hefur ekki skilað sér með lömbin sín tvö, taka systkinin til sinna ráða. Þau halda seint að kvöldi, án vitneskju Möllu, uppá heiði að leita ærinnar. Hefjast þá mikil ævintýri þar sem þau bjarga slösuðu hreindýri, kynnast kostulegri dverg-tröllkonu, takast á við Lagarfljótsorm og kynnast óvætti sem reynist hollvættur. Þór Túliníus leikstjóri og handritshöfundur skrifaði handritið og til liðs við hann fengum við valinkunnan hóp leikhússfólks. Ágústa Skúladóttir leikstýrir, Þórunn María Jónsdóttir sér um leikmynd, Karl Ágúst Úlfsson er meðhöfundur söngtexta og Aldís Gyða Davíðsdóttir sér um brúðugerð. Að auki taka þátt fjölmargir leikarar og tónlistarfólk ásamt áhugaleikhúsfólki af Austurlandi. Verkefnið fékk kr. 2.300.000 í styrk.

Vor / Wiosna er árleg lista og menningarhátíð þar sem áhersla er lögð samspil og samtal pólskra listamanna við íslenskt samfélag. Hátíðinni er ætlað að vekja upp spurningar um stöðu og sýnileika listafólksins innan hinna hefðbundnu ramma íslensku listasenunnar og á hvern hátt menningarlegur bakgrunnur okkar speglast í listinni. Markmiðið með hátíðinni er að skapa flöt fyrir skapandi listir og alþjóðlegt samtal og samspil þar sem að margvísleg pólsk lifandi list fær rými og athygli gegnum listgreinar. Í tengslum við hátíðina verða einnig pólskir listamenn í residensíum hér á austurlandi. Hátíðin nær yfir 10 daga og verða öll námskeið þáttakendum að kostnaðarlausu, leitast verður við að fá kennara og leiðbeinendur á námskeiðin sem að búa á Íslandi og geta kennt á pólsku og ensku eða íslensku. Þó áhersla verði lögð á að hafa sem flest atriði á hátíðinni á pólsku og ná þannig til þess stóra hóps pólverja sem að býr hér og starfar þá er hún einnig ætluð öllum sem áhuga hafa á pólskri menningu og listunnendum öllum enda teljum við mikilvægt að innflytjendur og börn þeirra styrki bæði tengsl sín á milli og út í samfélagið. Verkefnið fékk kr. 1.000.000 í styrk.

Sumarsýning Sláturhússins. Sumarsýning 2023 ber vinnuheitið Fyrirbæri. Sýningin er samsýning fjölmargra listamanna sem reka sameiginlegar vinnustofur og gallerí undir nafninu Fyrirbæri. Sýnd verða ný verk sem unnin eru á staðnum inn í rými Sláturhússins og í landslaginu í kring. Það hefur myndast sú hefð að Sumarsýning Sláturhússins er eitt stærsta myndlistarverkefni okkar og sumarið 2023 ætlum við að brjóta aðeins upp hið hefðbundna sýningarform þannig að framkvæmdin, þáttakan og afraksturinn mynda eina samstæða heild. Árangurinn af vinnu og rannsóknum listafólksins í residensíunni verður því megin-inntak sýningarinnar. Listafólkið sem að tekur þátt er á fjölbreyttum aldri, sum eru að stíga sín fyrstu skref á listamannaferlinum á meðan að önnur hafa áralanga reynslu að baki. Þau eru: Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir, Eva Ísleifs, Hrund Atladóttir, Lea Amiel, Sólbjort Vera Ómarsdótti, Anna Hallin, Olga Bergmann, Berglind Ágústsdóttir Anton Lyngdal, Brynjar Helgasson, Kristján Thorlacius, Sean O´Brian og Sölvi Steinn Þórhallsson. Verkefnið fékk kr. 1.000.000 í styrk.

Langt út / Far out Jazztónleikaröð.  Edgar Rugajs, gítarleikari og kennari við Tónlistarskólann á Egilsstöðum býður til sín gestum í Sláturhúsið einu sinni í mánuði í eitt ár. Undirstaðan er jazztónlist en útsetning og nálgun verður síbreytileg eftir því hver kemur í heimsókn. Kúl jazz, rólegur jazz og frjáls jazz og allt í bland. Verkefnið fékk kr. 600.000 í styrk.

Landvörður - Ljósmyndasýning. Verkið Landvörður eftir Jessica Auer verður sett upp í janúar 2023 í Sláturhúsinu. Jessicahefur verið búsett bæði á Íslandi og í Kanada um árabil. Hún er á heimavelli á Íslandi en á einnig auðvelt með að setja sig í spor ferðamannsins sem kemur til Íslands í leit að nýrri upplifun. Jessica hefur frá árinu 2016 ferðast víða um land til að festa slóð ferðamannsins á filmu. Um leið hefur hún myndað þau sem standa vörð um landið, landverði í náttúru Íslands. Á sýningunni verður ljósmyndaröð hennar Landverðir í öndvegi en einnig verða ný ljósmyndaverk ásamt videóverkum. Verkefnið fékk kr. 300.000 í styrk.