Skip to main content

Flýtið ykkur út og horfið á fegurðina!

Barnasýningin um Kjarval: drenginn, manninn og málarann.

í byrjun vikunnar mættu yfir 320 skólabörn af Austurlandi hingað í Sláturhúsið og horfðu á leiksýninguna Kjarval í uppfærslu Borgarleikhússins. Leiksýningin var frumsýnd á Litla Sviðinu í Borgarleikhúsinu árið 2020 og hefur gengið þar síðan. Nær allir 5.bekkingar í Reykjavík og nágrenni hafa þegar séð sýninguna en við fengum Borgarleikhúsið til samstarfs við okkur í tilefni af stærra Kjarvals verkefni sem Sláturhúsið, Minjasafn Austurlands og Skaftfell standa að. Leikmyndin var því staðfærð okkar sýningarrými og leikarar fengu örlítinn tíma til að æfa sýninguna upp hér. Aðeins tveir leikarar taka þátt í sýningunni en það eru þau Íris Tanja Flygenring og Sigurður Ingvarsson.  Stefán Hallur Stefánsson leikstýrði, leikmynd gerði Guðný Hrund Sigurðardóttir, lýsingu hannaði Pálmi Jónsson, tónlistina samdi Úlfur Eldjárn og um hljóð sá Þorbjörn Steingrímsson. Sýningarstjóri er Þórey Selma Sverrisdóttir.

Eftir leiksýninguna fengu gestirnir svo leiðsögn um sýningu Minjasafnsins um Kjarval, en sú sýning er í Sláturhúsinu og opin öllum á opnunartíma okkar

Listmálarinn Jóhannes Sveinsson Kjarval var ekki bara einn merkasti málari sem Íslendingar hafa átt, heldur má segja að hann hafi átt stóran þátt í að kenna þjóð sinni að meta stórbrotna náttúru landsins, náttúrunnar vegna. En hver var þessi sérkennilegi maður – og hvaðan kom hann? Í leikandi léttri fjölskyldusýningu sem byggir að hluta til á verðlaunabók Margrétar Tryggvadóttur um listamanninn, er leitast við að draga upp mynd af Kjarval; drengnum, manninum og málaranum. 

Listin sjálf er sömuleiðis í brennidepli leikverksins ; hvernig hún er allt í kringum okkur og hefur áhrif á lífið alla daga, við horfum á listina og ef við erum heppin þá horfir hún til baka. Jóhannes Kjarval batt bagga sína ekki sömu hnútum og samferðamenn en kenndi okkur að líta umhverfið nýjum augum og sjá listina í hinu stórbrotna jafnt sem hinu hversdagslega – í hrikalegu hrauni en líka í mygluðum flatkökum.

Screenshot 2024 10 18 at 11.10.26

 

 

IMG 9277 2IMG 9287 2IMG 9296