Listamannaspjall - leikkonurnar í Sunnefu

18. september 2020

Undanfarnar vikur hefur leikhópurinn Svipir unnið að því hörðum höndum að setja upp kvennatvíleik um Sunnefu Jónsdóttur, sem var tvisvar sinnum dæmd til dauða á 18. öld fyrir að eignast börn í lausaleik með bróður sínum. Henni skyldi drekkt. Sunnefa varð fræg fyrir að rísa upp gegn yfirvaldinu á Þingvöllum 1743 og segja sannleikann um hver væri raunverulegur faðir barns hennar. Leikkonurnar Tinna Sverrisdóttir og Margrét Kristín Sigurðardóttir leika öll hlutverkin í sýningunni og er verkefnið sérstakt fyrir þær báðar þar sem þær hafi verið virkir þátttakendur í öllu ferli sýningarinnar. 

“Við byrjuðum í samstarfi við Árna Friðrikson sem skifar verkið, en svo fengum við svolítið frelsi til að vinna þetta sem hópur bæði út á gólfi og í spuna. Við fáum að setja okkar blæ á þetta í samvinnu við Árna og Þór leikstjóra.” segja leikkonurnar. Það hefur að þeirra mati verið verkinu til gagns og hefur það tekið óvæntar stefnur í framhaldinu. 

Auðvelt að elska Sunnefu

Tinna Sverrisdóttir fer með hlutverk Sunnefu.

“Sunnefa er lang stærsta og bitastæðasta hlutverk sem ég hef tekið að mér hingað til. Ég er að taka burðarhlutverk og fara djúpt í rannsóknarvinnu á því hver þessi stúlka var. Þetta er einnig í fyrsta skipti sem ég tek að mér hlutverk þar sem ég leik manneskju sem var raunverulega til. Það finnst mér mjög mikill heiður enda var Sunnefa Jónsdóttir ótrúlega mögnuð kona. Við kynnumst henni fyrst í verkinu þegar hún er 15 ára, en hún eignast sitt fyrsta barn 16 ára, hún er sterk, hugrökk og þrautseig. Þetta er eitt lengsta dómsmál íslandssögunnar en Sunnefa bíður eftir því að vera drekkt í 18 ár. Henni er lýst í heimildum sem einni fegurstu konu landsins. Ég sé hana sem mjög hjartahlýja, það er auðvelt að elska hana - ég elska hana út af lífinu! Það er einhver sjarmi yfir henni, mér finnst leynast í henni einhver pönkari sem er ekki ólíkt sjálfri mér. Ég held að hún hafi verið djörf ung stúlka með sjálfsvirðingu og kjark til að segja sannleikann. Ef hún væri uppi í dag væri hún örugglega fremst í flokki í Druslugöngunni. Algjör rokkari! Mér þykir afskaplega vænt um hana.

Leikur átta persónur

Margrét Kristín leikur önnur hlutverk í sýningunni, en þau eru alls átta. 

“Ég leik Jón bróður Sunnefu. Það sem við vitum um hann er að hann er sakaður um að vera barnsfaðir systur sinnar. Við vitum ekki hvort að það er satt, en það gæti verið að þeir sem stóðu málinu næst hafi verið að klína því á hann. Börn voru oft náðuð sökum ungs aldurs og þá hefði enginn verið líflátinn fyrir glæpinn.

Hann kemur okkur fyrir sjónir sem svolítið fórnarlamb þeirra sem ráða. Hann reynir að segja sannleikann, en svo um miðbik verksins skiptir hann um skoðun og segir að lokum að hann sé faðirinn. Það er mjög dularfullt. Þá er hann kominn aftur í vörslu sýslumanns sem er mögulega hinn raunverulegi faðir. Hversvegna hann skiptir um skoðun vitum við ekki, en mögulega er það vegna þrýstings og hótana. Hann verður svolítið undir og er í lok verksins ansi bugaður, kannski bara tilbúinn að þessu ljúki öllu saman.

Ég fer líka í hlutverk sýslumannanna, feðga sem ráða miklu um afdrif Sunnefu. Annar þeirra sem kemur enn meir við sögu er sá sem hún sakar um að vera faðir seinna barnsins. Þetta er vel menntaður, stórvaxinn stoltur maður með mikil völd og vel efnaður. Hann missir svo tökin á lífinu vegna þessara ásakana Sunnefu, fer að hafa áhyggjur af eigin afdrifum og að missa völd. Hann verður marglitur í þessu verki.

Ég leik líka tvær konur í verkinu. Önnur er vinnukona á Skriðuklaustri og heitir Kristín. Hún er bælir niður tilfinningar sínar, er stolt og hörð í horn að taka. Henni fer að þykja vænt um Sunnefu en hún kann ekki að sýna það. Hún lokar að vissu leiti á hana því hún er hrædd um að missa hana en reynir um leið að herða hana upp fyrir það sem koma skal. Hin konan sem hún mætir seinna á lífsleiðinni er dönsk sýslumannsfrú. Hún er lífsglöð, björt og opin. Hún og Sunnefa tengjast og verða vinkonur. Hjá henni nær Sunnefa aðeins að slaka á og það birtir aðeins til í lífi hennar.

Getum við sett verkið í samhengi við nútímann?

Já, við erum hættulega nálægt þessu á köflum. Það sem birtist hvað augljósast er kvenréttindabaráttan. Þarna er ung stúlka sem segir sannleikann, rís upp gegn feðraveldinu og kúgun og þá hliðstæðu og speglun sjáum við  því miður í mjög mörgum samfélögum í dag. Nýjasta dæmið nálægt okkur eru kannski ungu konurnar sem heimsóttu fræga fótboltamenn á hótelherbergi og svo mikið alvarlegri dæmi eins og það að konur eru teknar af lífi um allan heim fyrir litlar sem engar sakir” segir Tinna

“Í vor bárust fréttir af stúlku í Íran sem var hálshöggvin af sínum eigin föður í rúminu sínu fyrir að vilja elska einhvern annan en pabbanum þóknaðist. Þetta er ein hliðin en svo er það líka ofbeldi almennt og ekki síst ofbeldi gegn börnum. Sagan er um systkini sem eru 14 og 16 ára sem eru dæmd svona harkalega. Þannig að þetta verk vekur mann svo sannarlega til umhugsunar um ofbeldi gegn börnum.” segir Margrét Kristín.

Þær segja lika að verkið endurspegli misrétti almennt og hvernig hægt sé að misbeyta valdi einhverjum einum í hag. Það er enn við lýði í dag. Þeir sem eiga mestan auð, þeir sem hafa völd og tengsl þeir geta hægar smogið undan réttlætinu. Þá nefna þær efnahagshrunið 2008 sem dæmi. Þar hafi almúginn misst allar sínar eignir og þurft að borga allt í topp, en þeir sem áttu mest fengu afskriftir af sínum himinháu skuldum. 

Lífið eftir Sunnefu?

“Er líf eftir Sunnefu?” segir Tinna. Þegar sýningum á verkinu lýkur heldur hún áfram rekstri á fyrirtækinu sínu Andagift, sem heldur námskeið og er með ýmsa tónlistartengda viðburði. “Svo er ég líka að flytja á ofsalega fallegan stað, það er næst á dagskrá þegar ég fer frá Egilsstöðum”

Margrét Kristín stefnir á tónleikahald. “Ég er að undirbúa sviðsetta tónleika, tónleikhús þar sem ég nota element leikhússins.” Hún hefur starfað sem tónlistarkona um árabil undir listamannsnafninu Fabúla og hefur gefið út fjórar plötur.  “Svo hlakka ég til að hitta fjölskylduna og nemendur mína þegar við höldum heim.”

Hvernig hefur dvölin á Egilsstöðum verið?

“Yndisleg!” segja þær báðar. “Við erum bara orðnar heimakærar. Það er svo gott að komast í þessa ró og þessa náttúru og ilmandi gróður. Svo er viðmót allra svo gott og móttökurnar frábærar. Við upplifum mikla virðingu og náungakærleik - bílarnir stoppa meira að segja fyrir gangandi vegfarendum” Segja leikkonurnar að lokum. 

Við þökkum leikkonunum kærlega fyrir spjallið og hlökkum til að sjá Sunnefu á sviði. Frumsýningin er 19. september og verður verkið sýnt í eina viku í Sláturhúsinu. Sýningin fer svo í Tjarnarbíó og verður sýnd þar áfram í október. 

Sláturhúsið // Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs

Kaupvangi 9, 700 Egilsstaðir // This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. // s: 897 9479