Skip to main content

Undirritun samninga

Í dag var sannarlega stórum áfanga náð fyrir Sláturhúsið menningarsetur, en sveitarfélagið Fljótsdalshérað og Landsvirkjun undirrituðu samning um leigu á Frystiklefanum til næstu 10 ára. Verkefnið á sér langa sögu, en Landsvirkjun vill styðja við nærsamfélagið og sýna fram á í hvað orkan nýtist. Landsvirkjun leigir salinn og þar á að setja upp sýningu í svokallaðri Ormsstofu. Fyrirhugaðar eru miklar framkvæmdir á húsinu og verður leigan greidd fyrirfram. Það auðveldar fjármögnun á breytingunum í heild sinni. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir í október. 

  • Hits: 1527

Vor / Wiosna. Pólsk menningarhátíð

Í ágúst hefur Sláturhúsið verið fullt af pólsku listafólki sem hefur ýmist verið með smiðjur eða sýnt verkin sín. Sýningarstjóri og skipuleggjandi menningarhátíðarinnar var listakonan Wiola Ujazdowska. Hún er fædd og uppalin í Póllandi en hefur búið og starfað á Íslandi um nokkurra ára skeið.

Á hátíðinni var haldin brúðugerðarsmiðja með listamanninum Karol Smaczny, en hann er lærður í leiklist, leikstjórnun og hefur sérhæft sig í brúðugerðarlist. Hann vann með mjög einfaldan efnivið og kenndi þátttakendum smiðjunnar að búa til óhefðbundnar brúður úr A4 blöðum og plastfilmu. Í lok smiðjunnar var unnið með Lagarfljótsorminn og hvort að hann væri í raun og veru grimmur. Gerður var skúlptúr af orminum og grímur þátttakenda hengdar upp í kringum hann. 

Kvikmyndin Rejs var sýnd í Frystiklefanum og boðið var upp á pólska smárétti fyrir sýninguna. Fyrir áhugasama þá er hægt að horfa á myndina á youtube, en hún sýnir pólskan raunveruleika fyrri tíma í kómískum búning. Slóð á myndina er hér.

Raftónlistarkonan Kinga Kozlowska spilaði hélt tónleika í Frystiklefanum en hún blandar saman raftónlist og vídjólist. 

21. ágúst opnaði samsýning pólskra listamanna sem eru búsettir á Íslandi. Það eru þau:  Agnieszka Sosnowska, ljósmyndari sem býr í Hróarstungu, Anna Pawloska, grafíklistakona, Anna Story, myndlistarkona, Grzegorz Lasnikow myndlistarmaður, Hubert Gromny myndlistarmaður, Lukas Bury myndlistarmaður, Magdalena Lukasiak, ljósmyndari, Staś Zawada, ljósmyndari og Wiola Ujazdowska, myndlistarkona. 

Í framhaldi af sýningaropnuninni voru tónleikar í Frystiklefanum með tónlistarfólkinu Kruk og Forrest Forrester og svo var kvöldinu lokað með pólsku karókí á Tehúsinu. 

Sýning á verkum myndlistarfólksins stendur til 31. ágúst. 

  • Hits: 1456

Sýningaropnanir á 17 júní

Á 17. júní síðastliðinn var mikið um að vera í Sláturhúsinu. Dagskráin hófst kl 15:00 með formlegri opnun á Tengsl, yfirlitssýningu á verkum grafíklistamannskins Ríkharðar Valtingojer (1935-2019). Ríkharður var afkastamikill listamaður sem var búsettur á Stöðvarfirði. Hann sýndi verk sín út um allan heim og seldi þau í Gallerí Snærós á Stöðvarfirði sem hann rak með eiginkonu sinni Sólrúnu Friðriksdóttur. Á sýningunni má sjá listaverk frá flestum tímabilum ferils hans. Þ.e akrýlmálverk, litografíur, tréristur og mezzotint verk.

Í beinu framhaldi voru Menningarverðlaun Fljótsdalshéraðs afhent, en þau hlaut Leiklistarfélag Fljótsdalshérað og er vel að þeim komin.

Sýningin Austfirkst fullveldi, sjálfbært fullveldi? opnaði svo á neðri hæð Sláturhússins, en sú sýning er sett upp aftur í tilefni af því að hún var tilnefnd til Íslensku safnaverðlaunanna. 

Listakonan Monica Frycova lokaði svo deginum með útgáfuhófi á bókinni sinni “Pure Mobile v.s Dolce Vita”. Bókin er framhald af ferðalagi sem hún fór í, með það að markmiði að fara með íslenskan saltfisk til Portúgal. Hún keyrði með saltfiskinn landleiðina á vespu, frá Seyðisfirði til Portúgal. Hún sýndi einnig vídjó um ferðalagið og bauð uppá borgfirskan saltfisk í tilefni dagsins.

  • Hits: 1914

Barnamenningarsjóður 2020

Úthlutað var úr Barnamenningarsjóði fyrir árið 2020 á degi barnsins, 24. maí. 
Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs í samstarfi við Þjóðleikhúsið fékk styrk uppá 4,6 milljónir fyrir verkefnið Þjóðleik. Þjóðleikur er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og margra grunn- og framhaldsskóla, menningarráða, sveitarfélaga og áhugaleikfélaga á landsbyggðinni. Markmið þess er að efla íslenska leikritun, styrkja leiklistariðkun ungs fólks og auka áhuga þess á leiklist, auk þess sem það styrkir fagþekkingu á leiklist í skólum og hjá áhugaleikfélögum. Verkefnið gengur nú gegnum þróunarferli sem ætlað er að styrkja grundvöll þess til frambúðar og koma samstarfinu við landshlutana í fastari skorður.
 
Að auki fékk Austurbrú í samstarfi við MMF, Skaftfell, Menningarstofu Fjarðabyggðar, Skólaskrifstofu Austurlands, Ungmennaráð Austurlands og List fyrir alla styrk upp á 3,000,000 kr fyrir BRAS 2020. 
BRAS er menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. Einkunnarorð hátíðarinnar eru Þora! Vera! Gera! enda er leiðarljós hennar að börn þori að vera þau sjálf og framkvæmi á eigin forsendum. Hátíðin er haldin frá miðjum september fram í október þar sem fram fara litlir sem stórir listviðburðir auk námskeiða og fræðslu á sviði lista og menningar. Yfirskriftin í ár er "Réttur til áhrifa" og byggir á 12. grein Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna.
 
Tvö önnur verkefni sem við eigum hlut að fengu einnig styrk og verða á dagskrá okkar 2020-2021
 
Takk fyrir okkur Barnamenningarsjóður!
  • Hits: 2030

Austurland á tímum Covid 19

Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og Minjasafn Austurlands tóku höndum saman um ljósmyndaverkefni í samkomubanninu. Markmiðið var að safna samtímaheimildum um þær fordæmalausu aðstæður sem voru vegna Covid 19 faraldursins og samkomubannsins sem sett var á í tengslum við hann. 

Ljósmyndirnar tók Tara Ösp Tjörvadóttir. Myndirnar verða settar upp á sýningu þegar aðstæður leyfa og verða síðan varðveittar hjá Ljósmyndasafni Austurlands. 

  • Hits: 1818

Fleiri greinar...