Skip to main content

Brúðugerðasmiðja

07. október 2021

Lokapunktur pólsku listahátíðarinnar Vor / Wiosna var brúðugerðarsmiðja fyrir börn sem haldin var í Sláturhúsinu laugardaginn 25. september. Smiðjan var einnig partur af BRAS, Barnamenningarhátíð Austurlands. Leikkonan Sylwia Zajkowska leiddi listasmiðjuna en hún útskrifaðist frá leiklistarskólanum í Kraká með sérstaka áherslu á brúðuleikhús. Hún hefur tekið þátt í ótal sviðssetningum, s.s Rauðhettu og Þumallínu og hefur starfað í fjölmörgum leikhúsum í Póllandi, Frankfurt og Berlín. 

Brúðugerðarsmiðjan var vel sótt, en um 20 börn mættu og gerðu sínar eigin brúður. Í upphafi sýndi Sylwia þeim mismunandi brúður, bæði leikföng og svo brúður sem eru notaðar í brúðuleikhúsum. Því næst sýndi hún börnunum hvernig hægt er að gera brúður á einfaldan hátt. Börnin voru fljót að tileinka sér tæknina og náðu öll að gera brúður eftir sínu höfði.