Skip to main content

Æfingar hafnar á barnaleikritinu Hollvættur á heiði

14. september 2023

Um mánaðarmótin hófust æfingar á nýju íslensku barnaleikriti Hollvættur á heiði eftir Þór Túliníus sem frumsýnt verður í lok október.

Það er valinkunnur hópur listafólks sem stendur að sýningunni; Ágústa Skúladóttir leikstýrir, Þórunn María Jónsdóttir er leikmynda og búningahönnuður , Aldís Davíðsdóttir gerir brúður, Ólafur Stefánsson hannar lýsingu, tónlist semur Eyvindur Karlsson og tónlistarstjóri er Hlín Pétursdóttir Behrens

Í aðalhlutverkum eru þau Jökull Smári Jakobsson, Vigdís Halla Birgisdóttir og Kristrún Kolbrúnardóttir. Æfingaferlið hófst fyrir sunnan og fengum við aðsetur hjá Leikfélagi Kópavogs til æfinga. Í næstu viku kemur svo hópurinn hingað austur og við bætist heimafólk í hópinn, mörg hver hafa þegar stigið sín fyrstu skref á leiksviði m.a. með leikfélagi Fljótsdalshéraðs en önnur eru að stíga sín fyrstu skref í atvinnuleikhúsi, þetta eru þau: Øystein Gjerde, Stefán Bogi Sveinsson, Hanna Sólveig Stefánsdóttir, Árni Friðriksson, Gyða Árnadóttir, Vigdís Diljá Óskarsdóttir og Sólgerður Vala 

 

Uppsetning á Hollvættur á heiði er eitt stærsta sviðslistaverkefni sem að Sláturhúsið hefur framleitt og í fyrsta sinn sem að við höfum fengið styrk úr Sviðslistasjóði fyrir atvinnuleikhús. Það er því mikil eftirvænting í loftinu og ljóst að mikil vinna er framundan hjá okkur á haustmánuðum bæði við æfingar og tæknivinnu. Það er líka einstaklega ánægjulegt að hafa tækifæri til að frumsýna nýtt íslenskt barnaleikrit sem að skrifað er sérstaklega fyrir Sláturhúsið og ekki síður að frumsýna í nýjum sviðslistasal hússins. Þetta er þó ekki fyrsta leiksýningin sem að sýnd er í nýja sviðslistasalnum, hér hafa m.a. Leikfélag Fljótsdalshéraðs, Leikfélag ME, Þjóðleikhúsið og Íslenski Dansflokkurinn sýnt á síðasta starfsári.