Skip to main content

Styrkir úr Uppbyggingasjóði Austurlands

15. desember 2021

Uppbyggingasjóður Austurlands úthlutaði styrkjum fyrir árið 2022 í gær, 14 desember í gegnum fjarfund. Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs fékk þrjá styrki fyrir verkefnin:

Hnikun – bókverk

Sýningin Hnikun er opnunarsýning nýs sýningarrýmis Sláturhússins sumarið 2022. Sýningin er samsýning listakvennanna Ingunnar Fjólu Eyþórsdóttur og Þórdísar Jóhannesdóttur.

Á þeim tímamótum verður gefið út vegleg sýningarskrá eða bókverk sem ætlað er að fylgja verkunum úr hlaði og jafnframt bæta við annarri vídd með greinargóðum textum er varpa ljósi á mismunandi þætti í sögu Sláturhússins. Þannig verður bókverkið bæði heimild um sýninguna og úttekt á stöðu Sláturhússins sjálfs.

Á sýningunni munu þær  Ingunn Fjóla og Þórdís sýna ný verk unnin út frá sögu Sláturhússins sem þær tvinna saman við hugmyndir um skynjun, sjónrænt áreiti, myndleifar og minni.

Að baki verkanna liggur töluverð rannsóknarvinna, en þær Ingunn og Þórdís hafa undanfarna mánuði kynnt sér sögu Sláturhússins sem var starfrækt á Egilsstöðum á árunum 1958-2003. Þær hafa tekið viðtöl við fyrrverandi starfsmenn sláturhússins varðandi minningar þeirra tengdum húsinu og starfseminni, ljósmyndað rýmið, farið yfir skjöl og kynnt sér teikningar. Þessi rannsóknarvinna mun skila sér í nýjum verkum sem verða í ýmsum formum; ljósmyndir, málverk og textílverk sem unnin verða sérstaklega út frá sögu og rými Sláturhússins.

Verkefnið fékk kr. 400.000 

Dagdraumar:

Haustið 2022 opnar nýtt og glæsilegt sviðslistarými í Sláturhúsinu og það er því full ástæða til að hefja það starfsár með áherslu á sviðslistaviðburði fyrir börn og ungmenni. Samtal okkar við Íslenska dansflokkinn hefur staðið í nær tvö ár en Covid -19 setti strik í þau plön sem gerð höfðu verið. Það er því einstaklega ánægjulegt að hefja þetta samtal aftur og nú með Sköpunarmiðstöðina sem samstarfsaðila að auki.

Verkið sjálft Dagdraumar er annað verk tvíeykisins Ingu Marenar Rúnarsdóttur og Júlíönnu Láru Steingrímsdóttur. Samstarf þeirra má rekja aftur til ársins 2007 þegar þær stofnuðu Menningarfélagið ásamt Ásgeiri Helga Magnússyni og Lydíu Grétarsdóttur. Inga Maren hefur unnið hjá Íslenska dansflokknum frá árinu 2011. Jafnframt hefur hún starfað í verkefnum erlendis og með sjálfstæðum hópum hér á landi. Inga Maren lauk BA prófi við London Contemporary Dance School, er með kennsluréttindi í Flying Low og Passing Through tækni frá David Zambrano og er menntaður Yogakennari. Júlíanna hefur unnið með Íslenska dansflokknum frá árinu 2012 sem búninga- og sviðsmyndahöfundur. Júlíanna lauk BA prófi við Central Saint Martins listaháskólann í London árið 2010 og hefur starfað sem búninga- og leikmyndahönnuður fyrir kvikmyndir, þætti, stuttmyndir, tónlistarmyndbönd, auglýsingar og leikhús.

Verkið Dagdraumar segir sögu ungrar  stúlku sem leggur land undir fót og ferðast um undur veraldar, um skóg og yfir sjó, finnur dýr og ævintýr. Dýrin eru undursamleg og töfrandi. Slangan snýst og sniglast og svanurinn virðist þekja himininn með vænghafi sínu. Bara ef stúlkan byggi yfir slíkum kynngikrafti, liðug, snörp og létt á tá, svífandi um loftin blá. Skyndilega rennur upp töfrastund, draumar hennar rætast og stúlkan tekur á sig nýja mynd.

Sýningin  er samstarfsverkefni MMF / Sláturhús, Sköpunarmiðstöðvarinnar á Stöðvarfirði og Íslenska Dansflokksins.

Verkefnið fékk kr. 300.000

Vor / Wiosna

MMF blæs aftur til pólskrar listahátíðar vorið 2022 þar sem að fram  koma pólskir listamenn sem búsettir eru og starfa á Íslandi auk listamanna sem starfa víðsvegar um heiminn.

Boðið verður upp á kvikmyndir, myndlist og tónlist en aðal áherslan þetta árið verður lögð á hljóðlistir og tónlist. Haldin verða námskeið í tenglsum við hátíðina meðal annars raftónlistarnámskeið fyrir börn og unglinga og slavneska söng- og þjóðlagasmiðju (án þess að gerðar séu nokkrar kröfur um tungumálahæfni), fyrir alla sem áhuga hafa auk þess sem kenndir verða einfaldir og – rólegir þjóðdansar frá Póllandi.

Markmiðið með hátíðinni er að skapa flöt fyrir skapandi listir og alþjóðlegt samtal og samspil þar sem að margvísleg pólsk lifandi list fær rými og athygli gegnum listgreinar. Í tengslum við hátíðina verða einnig pólskir listamenn í residensíum hér á austurlandi.

Hátíðin nær yfir 10 daga og verða öll námskeið þáttakendum að kostnaðarlausu, leitast er við að fá kennara og leiðbeinendur á námskeiðin sem að búa á Íslandi og geta kennt á pólsku og ensku eða íslensku þannig að allir ættu að geta tekið þátt.

Verkefnið fékk kr. 1.000.000

MMF fékk úthlutað samtals 1.700.000 kr úr sjóðnum. Við þökkum kærlega fyrir stuðninginn og hlökkum til að vinna að þessum spennandi verkefnum á næsta ári.