Skip to main content

BRAS 2021

BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi verður haldin í fjórða sinn í september og október víðsvegar um fjórðunginn. 

Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs tekur þátt í hátíðinni að vanda með árherslu á sviðslistir. 

Þann 3. september verður leiksýningin Vlog sýnd á Iðavöllum og er öllum nemendum 8-10 bekkjar í Múlaþingi boðið á sýningarnar. Vlog er eftir Matthías Tryggva Haraldsson og er sérstaklega skrifuð fyrir nemendur 10. bekkjar. Sýningin fjallar um þau Konráð og Sirrý, en þau ætla að flytja alheiminum mikilvæg skilaboð í með því að vídjóblogga (Vlog). Leikritið er æsileg hugleiðing um vináttu, misgóðar forvarnir og myndbandsveitunua YouTube. 

Leikstjóri er Björn Ingi Hilmarsson. Leikarar eru þau Þórey Birgisdóttir og Kjartan Darri Kristjánsson. 

Seinna í september verður svo boðið upp á leiklistarnámskeið fyrir 6-9 ára börn sem fer inn í grunnskólana. 

Verkefni MMF verða því miður ekki í Sláturhúsinu í ár þar sem framkvæmdir eru á fullu innanhúss og engin starfsemi möguleg á meðan á þeim stendur. 

  • Hits: 1272

Vor / Wiosna 2021

Pólska listahátíðin Vor / Wiosna var haldin í annað sinn í maí síðastliðinn. Hún hófst 14.maí með kvikmyndasýningum í Herðubreið á Seyðisfirði, en þar voru sýndar þrjár stuttmyndir eftir listamennina í  IP GROUP og KRYSTIAN GRZYWACZ. Daginn eftir var hátíðaropnun í Sláturhúsinu, en þar sýndu listamennirnir DOROTA CHYLIŃSKA, MICHAŁ KOWALCZYS, BOJOWNICE, BROKAT FILMS FEAT AGROPAULA og WIOLA UJAZDOWSKA vídjóverk sem voru sýnd áfram. Um kvöldið var tónlistarkonan MILENA GŁOWACKA með tónleika á Tehúsinu. 

Að þessu sinni voru einnig verk til sýnis á opinberum stöðum, en vídjóverk voru sýnd í Nettó, Íslandsbanka og Miðvangi 13  á Egilsstöðum og í Sundlauginni á Eskifirði. Þá voru skúlptúrar eftir GRZEGORZ ŁOZNIKOW til sýnis í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum. 

Vegna COVID þurfti að fresta nokkrum viðburðum en þeir fara fram í lok september.

Leikhópurinn PólÍs kemur með leiksýningu helgina 25-26 september og verður hún sýnd í Múlaþingi og Fjarðabyggð. Þá verður einnig boðið upp á leiklistarnámskeið fyrir börn á pólsku. Þeir viðburðir verða nánar auglýstir síðar. 

  • Hits: 960

Rausnarlegir styrkir úr Uppbyggingarsjóði Austurlands

Í desember var úthlutað úr Uppbyggingasjóði Austurlands í fjölmörg spennandi verkefni á Austurlandi. Menningarmiðstöðin hlaut þar rausnarlega styrki fyrir þrjú verkefni sem eru á dagskrá á þessu ári. 

Sýningin Hnikun fékk styrk, en hún er fyrri sumarsýning MMF. Á sýningunni munu Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Þórdís Jóhannesdóttir sýna ný verk sem þær vinna út frá hugmyndum um skynjun, sjónrænt áreiti, myndleifar og minni. Verkin verða í ýmsum formum; ljósmyndir, málverk og textílverk sem unnin verða sérstaklega í samtali við rými Sláturhússins.

Listahátíðin Vor / Wiosna hlaut einnig styrk en það er árleg lista og menningarhátíð þar sem áhersla er lögð samspil og samtal pólskra listamanna við íslenskt samfélag. Hátíðinni er ætlað að vekja upp spurningar um stöðu og sýnileika listafólksins innan hinna hefðbundnu ramma íslensku listasenunnar og á hvern hátt menningarlegur bakgrunnur okkar speglast í listinni. Undirtitill hátíðarinnar 2021 er “ við tökum sviðið” og vísar til þess að áhersla þetta árið verður á sviðslistir. 

Síðast en ekki síst hlaut verkefnið Þjóðleikur styrk en þar er um að ræða afar farsælt samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs. Þjóleikur er með það að markmiði að styðja við unglingaleikhús á lansdsbyggðinni og efla þáttöku ungmenna í leiklistarstarfi. Þátttaka í leiklistar- eða listnámi þroskar nemendur í skólum, eflir sköpunargáfu þeirra og hæfni til samstarfs í hópum.

Einnig er okkur sérstaklega ljúft að nefna það að Þór Tulinius, leikstjóri, leikari og höfundur, hlaut styrk til að vinna handrit að opnunarleikriti í nýju leikhúsi Sláturhússins. Leikritið er ætlað börnum og er sprottið úr sagnaheimi Austurlands. 

MMF þakkar Uppbyggingarsjóði Austurlands fyrir veittan styrk, hann skiptir miklu máli í starfi miðstöðvarinnar. Án þessara styrkja gætum við ekki haldið út þeirri dagskrá sem við gerum.

  • Hits: 1525

Framkvæmdir í Sláturhúsinu

Áætlaðar endurbætur á Sláturhúsinu hófust í október síðastliðnum. Í vetur verður unnið að því að breyta gömlu frystiklefunum á fyrstu og annari hæð. Sýningarrými verður á fyrstu hæð en á annari hæð verður rými fyrir sviðslistir (black box). Einnig stendur til að bæta aðkomu að efri hæðinni með nýjum stiga. Skipt verður um þak á húsinu, það klætt að utan ásamt minni endurbætum innandyra. Áætlað er að sviðslistarýmið á annari hæð verði tilbúið árið 2022. 

Ljóst er að röskun verður á starfssemi Menningarmiðstöðvarinnar á meðan á framkvæmdum stendur og mun hún að einhverju leiti fara fram utan veggja Sláturhússins.

  • Hits: 1891

RIFF á Egilsstöðum

Kvikmyndahátíðin RIFF, Reykjavik International Film Festival hefst í dag en er þetta í 17. skipti sem hátíðin er haldin.

Aðstæður eru með breyttu sniði í ár vegna COVID og því var ákveðið að prufa nýjar leiðir til að miðla hátíðinni. Var hún að hluta færð út á landsbyggðina með sérútbúnum bíóbíl til að fleiri fengju að njóta hennar. Bíóbíllinn rúntaði hringinn í kringum landið í síðustu viku. Hann stoppaði á Egilsstöðum síðastliðinn sunnudag fyrir utan Menntaskólann þar sem gestum og gangandi gafst kostur á að sjá evrópskar stuttmyndir. Um kvöldið var svo bílabíó þar sem kvikmyndin Dancer in the Dark var sýnd. Á mánudagsmorgninum stoppaði bíllinn fyrir utan Egilsstaðaskóla og bauðst nemendum þar að sjá biómyndir í bíóbílnum. 

Hátíðin sjálf mun að mestu fara fram á netinu, þar sem hægt er að leigja myndirnar og horfa á þær heima. Nánari upplýsingar eru á riff.is.

 
  • Hits: 1965