Skip to main content

Langt út / Far out

14. september 2023

Jazztónleikaröðin Far out / lang út hefur nú sitt annað ár hér í Sláturhúsinu. Að vanda verða bæði innlendir og erlendir jazzleikarar sem að heimsækja okkur. Sláturhúsið heimsótti jazztónleikahátíðina Supernova Blast í Álaborg í ágúst á þessu ári og kynnti þar bæði Far out / lang út verkefnið og Sláturhúsið sem vettvang fyrir tónleika. Upp úr þessari heimsókn hafa síðan sprottið ótalmargar hugmyndir að samstarfi og munu gestir okkar í vetur fá tækifæri til að njóta þeirra. Tónleikaröðin mun vara fram á næsta vor, þrennir tónleikar verða fyrir áramót og fimm eftir áramót. Far out/ langt út tónleikaröðin hlaut stuðning frá Menningar og Viðskiptaráðuneytinu í gegnum Tónlistarsjóð, Uppbyggingasjóði Austurlands og Múlaþingi. Á vorönn er ætlunin að bjóða upp á stutt námskeið /Masters Class þar sem að gestir okkar munu stýra vinnustofu fyrir áhugasama hljóðfæraleikara á staðnum 

  Fyrstu tónleikarnir verða fimmtudaginn 28.september kl 20:00 og er það tríó Andrésar Þórs sem að ríður á vaðið

Tríó Andrésar Þórs er skipað þeim Andrési Þór sem leikur á gítar, Þorgrími Jónssyni sem leikur á kontrabassa og Scott McLemore trommuleikara. Þeir félagar hafa starfað lengi saman í ýmsum hljómsveitum, þeir léku til að mynda saman á plötu Andrésar Mónókróm sem kom út árið 2012 og hlaut mikið lof gagnrýnenda og var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna það ár. Þeir Andrés og Scott eru einnig meðlimir í ASA Tríó ásamt Agnari Magnússyni orgelleikara en þess má geta að sú hljómsveit hlaut  Íslensku tónlistarveðlaunin 2022 fyrir plötuna Another Time sem þeir gerðu í samstarfi við saxófónleikarann Jóel Pálsson. Scott og Þorgrímur eru einnig meðlimir í Tríói píanóleikarans Sunnu Gunnlaugs og hafa leikið víðsvegar um Evrópu og í Bandaríkjunum með því triói auk þess að vera eftirsóttir meðleikarar með mörgum af okkar helsta tónlistarfólki.  
Í fyrra kom út platan Hereby með tríói Andrésar hjá norsku plötuútgáfunni Losen Records. Sú plata hefur hlotið mikið lof og töluverða spilun á streymisveitum. Á tónleikunum munu þeir félagar leika tónlist af plötunni Hereby í bland við vel valda jazzstandarda. 
Hér er linkur á myndband af laginu The Man Who Came To Play sem er að finna á nýju plötunni en það lag hefur komist inná marga áhugaverða playlista á Spotify og hlotið ágætis spilun á þeirri streymisveitu: